Um Endurhæfingu

Endurhæfing - þekkingarsetur er einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem sérhæfir sig í endurhæfingu einstaklinga með fjölþættar fatlanir.

Sífellt fleiri lifa, og lifa lengur, með alvarlegar fatlanir. Því er afar brýn þörf á sérfræðikunnáttu í meðhöndlun fjölþættrar fötlunar til að auka heilsutengd og félagsleg lífsgæði þessara einstaklinga og aðstandenda þeirra. Einnig er mikil þörf á fræðslu og leiðbeiningum fyrir aðstandendur og umönnunaraðila. Starfsfólk Endurhæfingar –þekkingarseturs hefur sérhæft sig og aflað sér sérfræðimenntunar á þessu sviði bæði heima og erlendis. Meðal annars bjóðum við upp á setstöðugreiningu og úrlausnir í tengslum við val á setstöðu og sérmótuðum sætum í hjólastóla.

Unnið er samkvæmt skilgreiningum og hugmyndafræði líkamsstöðustjórnunar –Posture Management og ICF líkani WHO sem leggur áherslu á  virkni og þátttöku.

Starfsfólk hefur sinnt rannsóknarvinnu og vinnu við þróun hjálpartækja ásamt því að vera í samvinnu við erlenda kollega um þróun meðferða fyrir skjólstæðinga sína.

Endurhæfing-þekkingarsetur hefur enn fremur sett sér gæða- og þjónustumarkmið sem byggja á gæðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins.

Vorið 2004 tók Endurhæfing að sér þjónustu við skjólstæðinga endurhæfingardeildar Landspítalans í Kópavogi. Um var að ræða fjölfatlaða einstaklinga sem bjuggu annars vegar á Landspítala í Kópavogi og hinsvegar á sambýlum á höfuðborgarsvæðinu. Samningar um þjónustu og rekstur voru undirritaðir við Heilbrigðisráðuneyti og Landspítala í maí 2004. Samningar þessir voru svo endurnýjaðir í apríl 2009.

Framkvæmdarstjóri og yfirsjúkraþjálfari er Guðný Jónsdóttir og Atli Ágústsson sjúkraþjálfari -og heilbrigðisverkfræðingur er faglegur staðgengill hennar.