Æfingastöð
26. október 2016
Endurhæfing-þekkingarsetur og Æfingastöðin
bjóða til fræðslu og kynningar á CPEF eða „CP eftirfylgni“
föstudaginn 29. Apríl kl. 11.00 -13.00.
Fyrirlesari verður Elisabet Rodby Bousquet PT, PhD, frá CPUP Svíþjóð en hún kemur hér á vegum Æfingastöðvarinnar og Endurhæfingar–þekkingarseturs vegna fræðslu – og starfsdags, sem haldinn er í tengslum við árlega skráningu fyrir þjónustunotendur.
Elisabet Rodby Bousquet er sjúkraþjálfari með doktorsgráðu í bæklunarsjúkraþjálfun og sérfræðinám í stöðustjórnun (Posture Management). Elisabet starfar við „Centrum för klinisk forskning“ við Háskólann í Uppsölum og er vel þekktur fyrirlesari um allan heim. Hún hefur margra ára reynslu af vinnu með börnum og fullorðnum. Hún er einnig stjórnandi og samhæfingaraðili fyrir CPUP fullorðna í Svíþjóð.
Kynningin verður haldin hjá Endurhæfingu –þekkingarsetri, Kópavogsgerði 10, 200 Kópavogi. Þátttökugjald er 3.000 kr. og boðið verður upp á léttar veitingar í hléi. Vinsamlegast skráið þátttöku hjá: endurhaefing@endurhaefing.is Gefa þarf upp nafn og kennitölu.
CPUP eða „Kerfisbundin skoðun og eftirfylgni með börnum og ungmennum með CP“ hefur farið fram í tvo áratugi í Svíþjóð (CPUP, Cerebral Parese Uppföljning, ísl.þýðing: CPEF, CP Eftirfylgni) með góðum árangri og hefur einnig verið tekin upp í Noregi,Danmörku og nú síðast í Skotlandi. Fylgst er með fullorðnum með CP á þennan hátt í Svíþjóð og verið að byrja í Noregi. Á Íslandi var CPEF tekið upp hjá Æfingastöðinni árið 2012 og hjá Endurhæfingu –þekkingarsetri á árinu 2014.
Með CPEF skoðun getur fagfólk fylgst með þróun einkenna hjá hverjum einstaklingi og komið auga á varúðarmerki. Þetta er undirstaða þess að hægt sé að veita viðeigandi meðferð hverju sinni. Þetta er þverfagleg eftirfylgni þar sem iðju- og sjúkraþjálfarar skrá færni, liðferla, spastisítet, þjálfun og þátttöku í íþróttum og frístundastarfsemi.
Bæklunarlæknir fylgist með stöðu mjaðmaliða og hryggjar. Barnalæknir skráir gang mála frá fæðingu og almennri líðan, en fyrir fullorðna sem koma nýir inn í eftirfylgnina skoðar hæfingar- eða taugalæknir einstaklinginn og staðfestir greiningu með CP eða CP lík einkenni. Nýverið var bætt inn eftirfylgni með andlegum þroska barnanna og er það hlutverk sálfræðings og flokkun á tjáningu sem æskilegt væri að gera í samráði við talmeinafræðing.
Markmiðið er að fylgjast með færni og líðan einstaklinga með CP og draga úr afleiddum skerðingum s.s. verkjum, kreppum, hryggskekkju og mjaðmaliðhlaupi. Lögð áhersla á að viðhalda besta líkamlega ástandi og færni hvers einstaklings við dagleg viðfangsefni ásamt því að efla þekkingu og samstarf fagfólks.
Vonumst til að sjá sem flesta.
Guðbjörg og Guðný