CP eftirfylgni

CP eftirfylgni

CPEF (CP Eftirfylgni) er kerfisbundin skoðun og eftirfylgni með fólki með CP. Tilgangurinn er að auka þekkingu á CP, bæta meðferð og aðra íhlutun, m.a. að koma í veg fyrir eða lágmarka algengi og alvarleika mjaðmaliðloss, hryggskekkju og vöðvastyttinga. Einnig að auka fagþekkingu og samvinnu fagstétta. Eftirfylgnikerfið var þróað í Svíþjóð (CPUP; CP Uppföjlning) og hefur verið þar í notkun síðan 1994 og síðan þá hafa fleiri lönd nýtt sér kerfið eins og t.d. Noregur, Danmörk og Skotland, auk Íslands. Endurhæfing-þekkingarsetur hefur boðið þjónustunotendum sínum slíka þjónustu frá árinu 2014.

CPEF hefur einnig verið tekin upp sem gæðagagnagrunnur á landsvísu í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

Fullorðnir einstaklingar sem eru í grófhreyfifærniflokki GMFCS I eru skoðaðir á þriggja ára fresti frá 18 ára aldri. Einstaklingar sem eru í grófhreyfifærniflokki GMFCS II eru skoðaðir á tveggja ára fresti frá 18 ára aldri þ.e. annað hvert ár og þeir sem eru í sem eru í grófhreyfifærniflokkum GMFCS III-V eru skoðaðir á hverju ári.

Hægt er að nálgast rannsóknir og fræðigreinar byggðar á CP eftirfylgnikerfinu á

https://cpup.se/forskning/

Tilgangur með CP eftirfylgni er að bæta heilsu og auka lífsgæði einstaklinga með CP með því að:

  • að bjóða upp á kerfisbundna og fyrirsjáanlega eftirfylgni með færni og heilsu
  • að samræma eftirfylgni og meðferð
  • að auka fagþekkingu og samvinnu á milli fagstétta sem sinna einstaklingum með CP
  • að auka þekkingu á einkennum einstaklinga með CP og bæta gæði meðhöndlunar í samræmi við viðurkenndar vinnuleiðbeiningar
  • að meta áhrif af mismunandi meðhöndlun iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara, hjálpartækja, lyfjameðferða og annarra læknisaðgerða
  • að draga úr líkum á alvarlegum liðkreppum eða mjaðmaliðlosi með fyrirbyggjandi aðgerðum og stuðla að því að einstaklingarnir nái sem mestri mögulegri færni
  • að fá heildarmynd af hreyfifærni og áhrifum hreyfiskerðingar á færni við dagleg viðfangsefni