Um okkur

Um okkur

Traust, virðing, þekking og gæði

Endurhæfingarfyrirtækið Endurhæfing - þekkingarsetur var stofnað árið 2004 og var það þáverandi heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson sem hafði forgöngu um að veitt yrði sérhæfð endurhæfingarþjónusta fyrir ungt og fullorðið fólk með flóknar skerðingar og langvarandi stuðningsþarfir. Um þjónustuna gildir þjónustusamningur við Sjúkratryggingar Íslands. Fyrirtækið er til húsa að Kópavogsgerði 10 í Kópavogi. Allt húsnæði er innréttað og sérstaklega búið þeim tækjum og búnaði, sem nauðsynlegur er fyrir svo sérhæfða starfsemi, meðal annars innisundlaug sem er sérstaklega byggð og aðlöguð með þarfir fatlaðs fólks í huga. Laugin er mikið notuð, enda er þjálfun í vatni einstaklega ákjósanleg fyrir fólk sem lítið getur hreyft sig af eigin rammleik.

Endurhæfing - þekkingarsetur er frumkvöðull í endurhæfingu og hæfingu ungs og fullorðins fólks með fjölþættar skerðingar og langvinnar stuðningsþarfir. Sérfræðiþekking er meðal annars á sviði forvarna, stöðustjórnunar og velferðartækni. Lögð er áhersla á lausnamiðaða þjónustu með áherslu á þarfir hvers þjónustunotanda í samstarfi við einstaklinginn, foreldra og aðstoðarfólk í nærumhverfi.

Unnið er samkvæmt skilgreiningum og hugmyndafræði um stöðustjórnun (e.posture management) og tilgangurinn er að auka færni, fyrirbyggja afleiddar skerðingar og frekari fötlun. Um leið er verið að stuðla að aukinni vellíðan, lífsgæðum og möguleikum til félagslegrar þátttöku. Unnið er með hliðsjón af ICF, Alþjóðlega flokkunarkerfinu um færni, fötlun og heilsu (International Classification of Function, Disabilities and Health)

GILDI

Endurhæfing - Þekkingarsetur hefur sett sér fjögur gildi sem starfsmönnum ber að hafa að leiðarljósi.

Gildin eru: Traust, virðing, þekking, gæði

Í samræmi við þessi fjögur gildi hefur Endurhæfing-þekkingarsetur sett sér gæðastefnu sem er endurskoðuð árlega. Markmið gæðastefnu fyrirtækisins byggist á því bjóða ávallt bestu þjónustu, samkvæmt gagnreyndri þekkingu, fyrir ungt og fullorðið fólk með meðfæddan eða ákominn skaða eða hrörnunarsjúkdóma í miðtaugakerfi. Gæðastefnunni er ætlað að byggja á réttinum til heilsu og mannréttinda og leggja áherslu á samstarf milli heilbrigðis- og félagslegra kerfa og samstarf þvert á fagstéttir. Áhersla er lögð á að styðja notendur, aðstandendur og aðstoðarfólk og auka þekkingu og færni.

Fatlað fólk hefur rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar og á rétt á að fá þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og framast er kostur og koma í veg fyrir frekari fötlun.